Til að illskan hafi yfirhöndina þarf ekki annað en að góðir menn aðhafist ekkert.
Hef verið frekar slappur undanfarið og hef nú komist að ástæðu þess. Óbeinar reykingar eru orsökin. Nú skal einhver gjalda fyrir skerta starfsorku sem tilkomin er vegna svartra lungna, truflana á heilastarfsemi og misreglulegs hjartsláttar. Fór því á stúfana til að kanna núgildandi reglur um þennan óskapnað sem óbeinar reykingar eru.
Lög 6 frá 2002
III. kafli. Takmörkun á tóbaksreykingum.
9. gr. Tóbaksreykingar eru óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þar með talið íþrótta- og tómstundastarf.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má leyfa reykingar á veitinga- og skemmtistöðum á afmörkuðum svæðum, en tryggja skal fullnægjandi loftræstingu, sbr. 4. mgr. Meiri hluti veitingarýmis skal þó ávallt vera reyklaus og tryggja skal að aðgangur að því liggi ekki um reykingasvæði.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má leyfa reykingar í tilteknum gistiherbergjum á hótelum og gistiheimilum. Í gistiskálum má hvorki leyfa reykingar í herbergjum né svefnskálum.
Þar sem reykingar eru leyfðar samkvæmt grein þessari skal séð fyrir loftræstingu sem fullnægir kröfum heilbrigðiseftirlits og þess gætt að reykingarnar mengi ekki andrúmsloftið þar sem þær eru ekki leyfðar.
Stjórnendur veitingastaða skulu leitast við að vernda starfsfólk gegn tóbaksreyk.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er heimilt að setja nánari reglur um reykingar á veitinga- og gististöðum í samráði við samgönguráðherra og umhverfisráðherra, þar á meðal um flokkun þessara staða með tilliti til reykinga og loftræstingar.
Tóbaksreykingar eru bannaðar í öllu húsrými í sameign fjöleignarhúsa.
Ráðherra skal í samráði við menntamálaráðherra og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setja reglur um takmarkanir á tóbaksneyslu utan húss á íþróttasvæðum.
Eins og sést á 9. gr. Laga um tópaksvarnir, númer 6 frá 2002 má leyfa reykingar á veitinga- og skemmtistöðum á afmörkuðum svæðum. Reykingasvæðið má hins vegar aldrei vera stærra en hið reyklausa. Einnig er skýrt kveðið á um að aðgangur að reyklausa svæðinu skuli ekki liggja um afmarkaða reykingasvæðið. Aukinheldur skal séð fyrir loftræstingu svo mengaða andrúmsloftið berist ekki til hins ómengaða.
Viðbót við þetta eru greinar í sömu lögum er varða viðurlög og eftirlit
18. gr. Heilbrigðisnefndir, Vinnueftirlit ríkisins, Siglingastofnun Íslands og Flugmálastjórn hafa, eftir því sem við á, eftirlit með því að virt séu ákvæði III. kafla laga þessara í samræmi við þau lög sem gilda um þessar stofnanir.
Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd eftirlitsins.
19. gr. Brot gegn ákvæðum 6. og 7. gr. eða reglum sem settar eru á grundvelli þessara laga og tengjast þeim greinum varða sektum en fangelsi allt að tveimur árum séu sakir miklar eða brot ítrekað.
Brot gegn ákvæðum 8. gr. eða reglum sem settar eru á grundvelli þessara laga og tengjast þeirri grein varða auk leyfissviptingar skv. 17. gr. sektum.
Um tilraun til brots eða hlutdeild gilda ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
20. gr. Það varðar mann sektum haldi hann áfram að reykja í húsakynnum eða farartæki þar sem bannað er að reykja skv. 9., 10. og 13. gr., sbr. einnig 11. gr., enda hafi umráðamaður húsakynna eða stjórnandi farartækis eða fulltrúi þeirra veitt honum áminningu.
Sömu aðilar geta vísað hinum brotlega úr farartækinu eða húsakynnum láti hann ekki segjast.
21. gr. Með mál sem kunna að rísa vegna brota á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim skal farið að hætti opinberra mála.
Heimild til þessa er hins vegar ekki að finna í lögum um starfssemi þessara stofnana. Þess vegna hefur aldrei verið hægt að banna reykingar á veitinga- og skemmtistöðum eftir að lög númer 6/2002 tóku gildi. Helsta heimild í lögum er 38. gr. laga 46 frá 1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem vinnueftirlitið vinnur eftir. Þar er rætt um að heilbrigðisráðherra skuli setja reglur um fræmkvæmd hinna ýmsustu þætti vinnueftirlits ríkisins. Meðal annars er rætt um varnir gegn reyk. Segja má að Vinnueftirlit ríkins hefði getað, árið 1980 sett framkvæmdarreglur sem myndu banna reykingar á vinnustöðum, að því gefnu að heilbrigðisráðuneytið myndi setja reglur um framkvæmdina á vinnureglum Vinnueftirlitsins. Heilbrigðisráðuneytið hins vegar nýtti ekki þess heimild sína úr lögunum. Jón Kristjánsson gæti þess vegna í dag bannað reykingar á veitinga- og skemmtistöðum með einu pennastriki. Að því gefnu að þar vinni fólk.
Siv Friðleifsdóttir o.fl. setti fram á síðasta löggjafarþingi áreiðanlega breytingartillögu (mál 539) við lög 6/2002 sem verða til þess að bannað verður að stunda tóbaksreykingará veitinga- og skemmtistöðum. Kemur til framkvæmda 1. maí 2006.
Meginmarkmið frumvarpsins er vinnuvernd starfsmanna því allir eiga rétt á því að vinna í reyklausu umhverfi. Auk þess þarf að huga að almannaheil með vísan fjölda vísindalegra sannana fyrir því að óbeinar reykingar valdi heilsuskaða og dauðsföllum.
Þingskjal 816 við mál 539 á löggjafarþingi 2004-2005 „Reykurinn sem reykingamenn sjúga að sér verður til við tiltölulega fullkominn bruna (600–800°C) og inniheldur minna af skaðlegum efnum fyrir vikið. Reykurinn sem myndast þegar tóbakið brennur sjálft myndast hins vegar við ófullkominn bruna (u.þ.b. 350°C) og inniheldur því meira af skaðlegum efnum[*]. Meiri hluti hverrar sígarettu (og annars tóbaks) brennur upp án sogs og myndar hættulegri reykinn (hliðarreykinn). Reykmengun sem myndast þar sem reykt er innan húss, t.d. á veitinga- og skemmtistöðum, verður því til að meiri hluta úr hinum hættulegri hliðarrey“ * = US Environmental Protection Agency (EPA). (1992). Respiratory health effect of passive smoking: Lung Cancer and other disorders. Washington DC, EPA, Office of Research and Development. Vinsamlegast takið eftir að greinin er frá 1992 og enn hefur ekki tekist að hrekja hana.
Eftirfarandi breytingar verða því á 9. gr. laganna:
a. 1. mgr. orðast svo:
Tóbaksreykingar eru óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þar með talið íþrótta- og tómstundastarf. Sama á við um þjónustusvæði utan húss séu þau undir föstu eða færanlegu þaki og meira en að hálfu leyti umlukin veggjum eða sambærilegum mannvirkjum.
b. 2. mgr. fellur brott. (undantekningarákvæðið)
c. 5. mgr. fellur brott.
d. 6. mgr., sem verður 4. mgr, orðast svo:
Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um reykingar á gististöðum og um framkvæmd banns við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum í samráði við samgönguráðherra og umhverfisráðherra.
Vil ég benda á áskorun hinna ýmissa úr stétt hinna vitru
Þekktar afleiðingar óbeinna reykinga.
Fullorðnir:
Lungnakrabbamein. Hjarta- og æðasjúkdómar. Brjóstverkir og fleiri einkenni hjartasjúkdóma versna. Astmaköst hjá þeim sem hafa astma. Berkjubólga versnar. Heilablóðfall. Fósturvöxtur minni en ella (lítil fæðingarþyngd). Fæðing fyrir tímann.
Börn:
Vöggudauði. Eyrnabólgur. Sýkingar í öndunarfærum. Þróun astma hjá einkennalausum. Astmaköst hjá þeim sem hafa astma.
Aðrar afleiðingar óbeinna reykinga:
Öndunarerfiðleikar. Ógleði. Óþægindi í öndunarfærum. Höfuðverkur. Hósti. Óþægindi í augum.
Fengið hjá breska læknafélaginu (British Medical Association (2002). Toward smoke-free public places. London: BMA.)
jonminn.com skorar á Alþingismenna að breyta 4 gr. í máli 539 sem er núna í meðförum þingsins úr „Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 2. og 3. gr. koma til framkvæmda 1. maí 2006.“ Yfir í „Lög þessi öðlast þegar gildi.“
mánudagur, ágúst 22, 2005
Skrifað af Jon Minn klukkan 01:13
|