þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Ég var í bæjarvinnunni, hvað ætli það hafi ekki verið 1997, og var ósköp latur sláni. Verkstjórinn var fönguleg eldri stúlka sem hét Rósa(og heitir vonandi enn).

Eftir tvo daga í vinnunni var ljóst að ég var mjög latur við vinnu og þurfti Rósa þessi stanslaust að ýta við mér. Annars var hún mjög góður yfirmaður og geinilega töff, hún hafði fyrr um veturinn komið fram í hinum geysivinsæla unglingaþætti „Ó“ ásamt kærastanum sínum og talað opinskátt um hvernig það er að VERA SAMAN en þau áttu heima á Egilsstöðum.

Í vinnuhópnum gekk allt sinn vanagang, allir að kynnast og allt voða rólegt. Við unnum uppí Árbænum þarna uppí Ásunum fyrir ofan Fylkisvöllinn. Þá gerði ég soldið sem hefur étið mig að innan í öll þessi ár.

Í einni peppræðunni hennar Rósu, sem hún var orðinn frekar þreytt á mínum síkjaftandi letingja, kallaði ég hana „tík“..... ó hve ég skammast mín, því hún var það alls ekki og átti þetta svo ekki skilið ... það sem eftir lifið dags vann ég eins og þeir gerðu á bómullarekrunum hér í gamla daga.

Ég var harðákveðinn í því að vera geipilega duglegur fyrst ég væri svona mikill hálviti. Á leiðinni heim í ljóta bílnum fann ég á henni að hún var sár. Ég var ákveðin að biðja hana afsökunar daginn eftir.

En þegar ég kom heim tók stóra systir á móti mér með skilaboð, ég hafði fengið símhringingu frá manni sem vildi ráða mig í aðra vinnu. Ég var tvístígandi, enda átti ég að mæta daginn eftir í nýju vinnuna og gæti því ekki beðið Rósu afsökunar.

Ég mætti í þessa nýju vinnu frekar óöruggur yfir því að hafa sýnt lélegan karakter. Ég var latur í nýju vinnunni fyrsta daginn en það var aðallega af því að nýji yfirmaðurinn sagði mér eiginlega ekki hvað ég ætti að gera. Svo fannst mér eins og ég væri að bregðast Rósu. Ég náði aldrei að biðjast afsökunar.

Þetta lítur kannski ekki út fyrir að vera merkilegt en mér finnst það ....... svo Rósa ef þú ert þarna - Fyrirgefðu ég kallaði þig tík!