mánudagur, ágúst 11, 2003

Ég hljóp hressilega á mig áðan. Ég var að fara í strætó og 3 litlir strákar eru eitthvað að bardúsa fyrir utan strætóinn og einn lítur uppá mig og segir, hey risi vá, þá sagði ég, hey heimskur krakki vá. En ég hefði betur sleppt því því þessir ungu menn eru greinilega mjög vel upp aldir. Þeir þögnuðu allir og spurðu svo hvað sagði hann hvað sagði hann. Nú, svo sagði einn við mig íbygginn á svip hann var bara að tala við sjálfan sig það er óþarfi að kalla hann heimskann. Stolt mitt sem fullorðins manns féll saman er ég lét þennan strák taka mig í kennslustund í kurteisi og viðmótsþýðri framkomu. ÉG áttaði mig á því að ég átti ekkert með að særa strákinn fyrir að hafa orðið hissa á ríkidæmi mínu, ég hefði átt að búast við því og taka því eins og maður í staðin fyrir að svara með hortugheitum. Við þessa upplifun mýktist ég allur upp og fór að tala um körfubolta við strákana þeir voru bara svalir á því og fóru að reikna hvað þeir ættu eftir að vera stórir miðað við hvað ég hefði verið stór á þeirra aldri, þeim leyst nú ekkert á samanburðinn en fannst samt töff að ég hefði óbeit á körfubolta. Svo fórum við sitt í hvora áttina strákarnir að ærslast aftast í strætó en ég settist fyrir framan miðjuhurðina og reyndi að vera svalur svo brjóstgóða dökkhærða blómarósin með sílíkonið sem labbaði inn í strætó myndi taka eftir mér og bjóða mér fría ferð.