föstudagur, mars 21, 2003

Að fyrstu legg ég til að við leggjum virðingu fyrir stríðsæsingamönnum niður innra með okkur.

Að sletta málningu á táknrænt hús eru ekki mótmæli heldur skemmdarverk, miklu nær væri að sletta skyri yfir ráðamenn þjóðarinnar. Þó það séu að sjálfsögðu skemmdarverk líka, bara skemmtilegri. Ofbeldislaus andstaða er málið, í 74gr. Stjórnarskrárinnar segir „Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur. Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.“

Annars er erfitt að útbúa skoðun sem stenst alla gagnrýni. Ein spurning er eigum við að samþykkja árásina? Við erum svo lítil þjóð og eigum ekki að skipta okkur af svona stórmálum í útlöndum. En við erum í nato og þar af leiðandi ekki sjálfkrafa hlutlaus í svona málum, við þurfum að taka afstöðu og það væri erfitt að fylkja okkur ekki með málstað Bandaríkjanna fyrst við viljum að þeir haldi áfram notum og viðhaldi að hluta á Keflavíkurflugvelli. Það þarf annaðhvort að segja þeim afnotum upp eða bara þegja og vera sæt.

Um heimsmálin ætla ég sem minnst að segja þar sem ég ælta mér er fram líða stundir að verða framkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna.

En þá að daglegri viðburðum ég fór á föstudag síðasta í heimsókn til Þorvalds þar sem hann og Gunnar voru að semja lag en eitthvað hefur það gengið illa hjá leikskólakennaranum því þeir sneru sínum kröftum að því að semja lag um mig þegar ég mætti. Það hljómaði vel en þar sem minni mitt er takmarkað man ég ekki textann né inntakið í honum. En takturinn kom úr Lola með The Kinks. Síðan var haldið niður í bæ til að hitta fegurðadísir en því miður virðast þær ekki fara á O´Brians á Laugaveginum í staðinn er þar að finna Ingva litla trúbador eða Ingvar litla (ég tók ekki eftir því því ég var svo ódrukkinn). Þorvaldur hefur skemmtilegan sið þegar hann fer að skemmta sér, það er að hann tekur með sér litla minnisbók þar sem hann og samferðafólk hans getur skrifað niður það sem merkilegt kemur fyrir sjónir. Inni á umræddum stað sáum við Valdi, feitan gaur í peysuvesti hann settist á næsta borð við okkur og ég tók mynd af honum sem ég ætla að setja inn á myndaheimasíðuna mína þegar ég hef safnað þolinmæði til þess að vinna í henni. En hann var feikilega fyndin sá feiti, með hárið í bylgjum vatnsgreitt afturábak þó ekki væri það sítt. Í útslitnum svörtum körfuboltaskóm og í rauðu og dökkbláu peysuvesti í svörtum þröngum bol innundir. Þegar Ingvi litli kláraði lögin sín öskraði hann alltaf í kapp við Valda að næst ætti að spila óspilanlega tónlist á kassagítar, Valdi vildi meira af Bítlunum. Já þetta var skemmtilegt, mest gaman þótti mér þegar við komum þarna inn og lítil feit stelpa sem rakst á mig og fékk svo í mjóbakið við að líta upp, mælti svo við mig að ég væri stór. Vá, sagði ég, þú tekur vel eftir og þú ert sjálf lítil stúlkukind, voða er gaman að skiptast á staðreyndum. Eitthvað hefur hún tekið þetta nærri sér því klukkutíma seinna sest hún á næsta borð en snýr stólnum að mér og segir fyrirgefðu mér brá bara við að sjá svona frík. Ég sagði allt í lagi þetta kemur fyrir, síðan fór hún að strjúka á mér lærið, krossbrá mér við þetta og bað hana flóttalega að snúa ástleitni sinni að rónanum í horninu, aftur var það hún sem hvarf á braut. Hvernig myndu börn okkar líta út ef þessi ferð hefði verið farin, ha bíddu þau hefðu kannski farið millivegin og orðið venjuleg aaaaahh djö, gasp.





Já einmitt ég er með bakþanka.

Eftir langa setu á O´Brians og mikið skrif í litlu svörtu bókina hans Valda var ég allt í einu lentur í tilgangslausu rifrildi við Gunna útaf engu né um neitt, kannski hann hafi fyrir löngu síðan staðsett sig í áfengisheimum og ég ekki fylgt honum eftir og sambandið milli þessara heima hafi verið eitthvað rofna. Á þessari stundu ákvað ég að skilja strákana eftir og gekk útí borgina og keyrði heim sifjaður með sígarettureik í augunum.