mánudagur, janúar 20, 2003

Það virðist allt fara í taugarnar á mér, ég þarf vafalaust að hugsa minn gang. En það sem er sárt núna er frostið sem bítur mann er maður hleypur milli bygginga Háskóla Íslands, af hverju var ekki byggt samhangandi hús í staðin fyrir þessar sjálfstæðu álmur? Þeir menn er skipulögðu byggingu númer 2 við háskólann (held Lögberg) er um að kenna, þeir hefðu átt að hafa innangengt yfir í hana frá Aðalbyggingunni. Ef því skipulagi hefði verið haldið væri betra að stunda mitt nám. En þetta er ekki bara þeim að kenna heldur líka vitleysingunum sem hönnuðu næstu hús þar á eftir og Náttúrúfræðihúsið nýja var/er meðal annars byggt á mörkum háskólalóðarinnar án neinnar tengingar við restina af álmunum. Hvað á þetta að þýða í landi þar sem vindur er stöðugur en breytilegur, hitastig er lágt og bensín dýrt (maður freistast ansi oft að ræsa bílinn ef maður þarf að renna uppí Háskólafjölritun) Ef hér væri sumar allt árið um kring væri þetta fyrirkomulag munaður (að geta hlaupið eftir grasinu berfættur milli fyrirlestra). Nei nú er mál að linni, ég legg til að næstu menn sem fá fjárveitingu til að hanna nýtt hús staðsetji það ekki við læknagarð heldur hanni það sem viðbyggingu ofaní bílastæðið milli Lögbergs, Árnagarðs, Íþróttahússins, Odda og Nýja Garðs það er hægt að hafa bílakjallara undir þessu stórhýsi. Þegar þetta hús er risið er kominn upp kjarni í skólanum þar sem stúdentar geta gengið um á inniskóm og látið geyma yfirhafnir við útgang þann er þeir vilja fara út um. Þessi bygging myndi síðan verða tengd Aðalbyggingunni, Jarðfræðihúsinu, Félagsstofnunarhúsapparatinu og Þjóðmynjasafninu þegar fram líða stundir. Næst yrði ráðist í að tengja bókhlöðuna við þetta vistkerfi. Á meðan þessu stæði væri búið, með litlum kostnaði, að tengja VR hvað sem númerið er við Tæknigarð og Háskólabíó. Árnagarð myndi tengja þeim hluta og síðan væri síðasta verkið, í átakinu, að tengja bókhlöðuna og háskólabíó. Náttúrufræðihúsið yrði að mæta afgangi nema glergangur í gegnum Norrænahúsið fengi styrk frá Norðurlandaráði. Já þetta er fögur sýn og álitleg.