Aaaa hvað það var gaman að vakna upp eins og gamalmenni klukkan 8:24 bara af því ég þurfti að pissa. Ég staulaðist inná baðherbergi og skoðaði mig í speglinum eftir losun. Á leiðinni til baka hugsaði ég með mér... „ég er þyrstur“ ... svo ég fór inní eldhús þar sem pabbi var að býsnast yfir Sigurði Einarssyni en líka helvítinu honum Davíð, meðan hann las blöðin. Unaðsleg kaffilykt útum allt og hjónabandssæla á borðinu. Ég fékk mér vatnsglas og sá allan snjóinn hugsaði þá vá hvað það væri gaman að labba úti núna í góðri úlpu, eins og ég komst seinna að að Bó hafði verið að gera á þessum tíma. Eftir vatnsglasið ákvað ég að sofa lengur og snerti því ekki á hjónabandssælunni. En í staðinn fyrir að sofna lá ég bara og lét mér líða vel undir sænginni sáttur við að þurfa ekki á fætur. Svo kveikti ég á Rás 2 og hlustaði á útvarpsmanninn Gest tala við einhvern sem hafði fest bílinn sinn á Þorskafjarðarheiði og björgunarsveitarmenn í Króksfjarðarnesi hefðu dregið hann út svo hann komst á fund með bændum á Hólmavík að kanna internettenginar þeirra. Algjör snilldarmorgunn svo ákvað ég að stilla á Skonrokk þar sem Birgitta var í viðtali við Zombie og ég held bara að ég hafi ekki verið alveg vaknaður því ég fékk hausverk á að hlusta á þau tala (kannski af ég þurfti að hugsa á meðan) svo ég skipti bara aftur yfir á Rás 2 og lét mér líða vel yfir lögum um ástina og blómin. Eftir einn og hálfan tíma af svefnvökuhlustun á útvarpið fór ég að hugsa um þessa hjónabandssælu sem beið mín. Ég fór aftur fram, skellti mér í inniskóna, Svarthöfðabuxurnar, bol og peysu. Byrjaði að lesa blöðin eins og ég geri alltaf á meðan ég borðaði Cheerios með léttmjólk og Egils eplaþykkni blandaða í vatn í stórt kókglas, ég keypti tylft af þeim á 390 í Bónus hér um daginn. Muldi sæluna og renndi yfir fréttirnar á milli þess sem ég horfði á snjóin úti og reyndi að vakna almennilega... Þessi morgun er bara sá besti í þessum flokki.
|