Svakalegt að missa af þessum kosningum útaf því ég framkvæmdi þær. Ég hef verið fjarstaddur kosningaúrslitaútskýringar og ætla að halda mig þeim megin, bendi ég áhugasömum á veraldarvefinn,sjónvarpsútsendingar og á lestur, hlustun og skynjun hinna fjölmörgu útskýringa fjölmiðla alheimsins til fróðleiksleitar.
Ég er að velta fyrir mér hvort maður ætti að skrá sig í stjórnmálaflokk og eftir mikla umhugsun þar sem ég útilokaði Vinstri Græna, T-listann, Nýtt afl og Samfylkinguna, hef ég ákveðið að gera ekkert eins og er, starf í flokkum á bara ekki við mig eins og staðan er í mínum hugsunum, og heldur ekki hjá Sjálfstæðisflokknum né Framsóknarflokknum (þó ég áskilji mér rétt til þess að skipta um skoðun varðandi Framsókn, því hann er alltaf opinn í alla enda og síbreytilegur).
Ég vill samt vera í innsta hring og elska, verja og dá stefnu og einstök verk flokksins míns en ég vill líka geta hrækt á verk sömu manna. Vera nokkurskonar snillingur sem hefur alltaf rétt fyrir sér, alltaf. Aldrei vil ég slá feilnótu og þess vegna ekki hengja mig í einhverja flokksmaskínu, nema til þess að snúa henni eftir mínu höfði. Vera skáld sem lifir á vexti eigna sinna óháður launum eða öryrkjabótum.
Ég vitna í Laxness, n.t. Vefarann mikla frá Kasmír, og á þann stað í bókinni sem ég var að lesa þegar ég ákvað þetta fyrir nokkrum árum, þar stendur;
„Skáldin eru hættulegust“ sagði Örnólfur „Það er tilgángslaust að ætla sér að mæta þeim á sama vetvángi og öðrum þjóðfélagsborgurum; þeir standa fyrir utan þjóðfélagið og hafa aldrei neitt að missa. Þá bíta eingin vopn. … Og þeir hafa þann merkilega hæfileik frammyfir aðra menn að láta sér aldrei segjast … En Steinn á séreignir og getur farið sínu fram án þess að segja einsog hinir: Wessen brot ich ess, dessen lied ich sing.“ Eða í þýðingu Sigríðar í vinnunni hennar mömmu á mogganum, „Ég syng ljóð þess sem gefur mér brauð.“ Þetta sagði útgerðarmaðurinn Örnólfur við Diljá þegar hann hafði komist að því að frændi sinn Steinn Elliði, væri orðinn vinstri maður. Rétt áður en hann reyndi varfærnislega að fleka Diljá í hjónaband, en hún hafði óljóst verið lofuð Steini Elliða. Ég sleppti af ásettu ráði hluta tilvitnunarinar því mér finnst sá hluti ekki eiga við um mig.
sunnudagur, maí 11, 2003
Skrifað af Jon Minn klukkan 21:30
|