sunnudagur, desember 11, 2005

Borgin mín

Mjög góðir þættir á RÚV, sest alltaf niður með osta og crackers þegar þeir eru á dagskrá. Núna áðan var Kristinn R. Ólafsson að sýna okkur Madríd. Mjög falleg borg, með fjölda halla, garða og torga sem konungarnir hafa reist sér og öðrum til afþreyingar. Sérstaklega fannst mér áhugaverð fullyrðingin um að Stallari konungs hefði reist kóngi garð allstóran sérstaklega svo að hann sjálfur fengi frið til að ráða ríki sínu. Þá fór ég að pæla aðeins í einræði og erfðaréttinum.

Ef maður nokkur, kóngur, lætur glepjast af gulli og grænum skógum sér til afþreyingar en sleppir því að huga að hagsmunum ríkisins hversu hæfur er hann til að stjórna því? Af hverju er þá ekki langheppilegast að leyfa næstráðanda að taka við? Jafnvel fá úrskurð almúgans um það hvort hann sé ekki hæfari en einhver annar?

Ég sé fyrir mér að hægt verði að halda sérstakar kosningar þar sem menn sem meira mega sín (þeir sem hafa eitthvað almennilegt til málanna að leggja) lýsa yfir, í leyni, hverjum þeir treysta best.

En þá er það spurning, af hverju bara menn sem meira mega sín? Leyfum líka minniháttar lágstéttarliði að kjósa í leyni, bjóðum því með líka.

Hvað um konur? Sumar konur ráða meira en karlar sem meira mega sín, aðrar konur ráða engu og hafa oftast ekkert málefnalegt til málanna að leggja. Það á reyndar við um minniháttar karlmenn, svo leyfum öllum konum að kjósa.

En ekki börnum? Nei, þau geta ekki gert upp hug sinn án beinna tengsla við sjónarmið foreldra sinna svo þau verða að vera ákveðið gömul áður en þau geta kosið! Annars sæjum við svo mikil áhrif frá útungunarvélum á stjórnunarhætti ríkisins. Spurning að negla niður aldurstakmark, t.d. 18 ára, þá er fólk orðið að sjálfstæðum manneskjum og oftast flutt að heiman og farið að stjórna sínu lífi óháð ættartengslum, svona í leynikosningum allavega.

Kjósum við um hvert einasta smáatriði? Nei, það er því miður ekki hægt, við myndum ekki gera neitt annað en að stjórna og kjósa í leyni. Svo við skulum hafa sérstakt fólk sem við kjósum til að ráða smáatriðunum. Við myndum sjálf ráða öllum meiriháttar málum í leynilegum kosningum, að því gefnu að sérstaka fólkið geti ekki komist að niðurstöðu eða vilji fá álit almennings.

Ok, þá er þetta komið? Nei, hver á að hafa eftirlit með því að þessir stallarar geri rétt? Jú, höfum gáfað fólk til að skera úr um öll álitaefni, (við skulum mæla gáfur eftir sérstökum prófum sem stallararnir útbúa).

Við veljum þá stallara í beinum kostningum. Þeir stjórna svo smáatriðnum fyrir okkur á meðan við verslum, elskum og slöppum af (tæmandi talning).

En hey... hvað eiga kóngarnir þá að gera? Eigum við að myrða þá? Já, við skulum gera það, þeir eru hvort eð er leifar af hnefaréttinum sem löngu er aflagður, er hann það ekki annars?

Höfum kóngana aðeins lengur inni, þangað til við áttum okkur á því hvort við viljum hafa þá eða ekki.

Þá er bara eitt eftir, hver á að búa til garðana, hallirnar og torgin? Varla stallararnir? Það verður að vera einhver sem er ríkur, einhver sem hefur hag af því að láta fólki líða vel. Kannski fræga fína fólkið? Eða kannski einhver sem fær stöðugar tekjur, nú fær kóngur bara það sem "við ríkið (stallararnir)" ákveðum. Svo hann á ekki peninga til að byggja stórhýsi og mannvirki til afslöppunar.

Kannski æðsti stallari? Nei, það væri óráð, þá yrðu kosningarnar bara vinsældarkosningar en ekki málefnalegur baráttuvöllur skoðanaskipta í uppbyggingu ríkisins.

Höldum bara einræðinu - Lengi lifi kóngurinn.