Ég ákvað að sleppa ræktinni í dag, ég treysti ekki hreinlætisaðstöðunni þar fyrir opnu sári og er auk þess í tímaþröng. Svo ég ákvað að taka sturtuna heima í dag. Þegar á hólminn var komið ákvað ég að fara frekar í bað, því það er svo afslappandi að fara í bað. Ég læt renna í baðið og fer svo að slaka á og undirbúa baðferðina. Þegar nægt vatn er komið í karið fer ég úr öllum fötunum og sting sárum vinstri fæti af hraða og festu ofan í brrrr fokk það var ískalt, ég hugsa hmm kannski ég ætti að hafa fótinn ofan í til að kæla sárið en svo átta ég mig á því að kannski er of seint að grípa til þannig úrlausna. Svo ég öskra yfir mig og kippi fætinum upp úr. Djöfull að lenda í þessu, ég kanna hitastillinguna og mér virðist sem ég hafi gert einhver smámistök í ferlinu. Hmm, best að láta renna úr baðinu smá af kalda vatninu og bæta svo heitasta vatninu við, á meðan á þessu stendur er ég berstrípaður. Þarna langaði mig í baðslopp ég hefði átt að biðja um hann í afmælisgjöf. Bíð í sex eða sjö mínútur eftir að baðið nái fyrri styrk að magninu til og viti menn þá er allt heita vatnið við kranann en kalda vatnið í hinum endanum. Ég næ að mynda hringstreymi með höndunum til að ná æskilegri hitajöfnun í karinu. Kostuleg sjón og eftir nokkrar mínútur af þessum handahreyfingum ákveð ég að prófa að stíga aftur ofan í en þá er eins og hægri fóturinn sé í kaldara umhverfi en sá vinstri. Svo ég næ í sturtuhausinn og reyni að láta heitt vatn skella á yfirborðið úti um allt. Með svolítilli þrautseigju næ ég viðunandi hita. En þegar ég læt búkinn síga kemur í ljós að það eru ennþá einhver samskiptavandamál milli heita og kalda vatnsins. Svo að í staðinn fyrir að sitja í heitu karinu og láta hitann róa vöðva og bein, er ég staddur í vondu baði þar sem mér er köflótt heitt kalt og þrátt fyrir miklar jöfnunarhreyfingar næ ég baðinu ekki eins og mig langar að hafa það. Ég fer því upp úr ósáttur og í enn meiri tímaþröng því ég þarf auðvitað að skrifa um allt þetta á bloggið meðan þetta er enn í fersku minni.
|