Ég er ekki trúaður maður hef ekki mikið álit á trúarbrögðum, þau eru fyrir þá sem átta sig ekki á lífinu.
Mér datt það snjallræði í hug síðasta haust að fara í messu svona til þess að sjá hvað færi fram í messu á venjulegum sunnudegi. Ég hafði velt þessu fyrir mér í þónokkurn tíma og einn sunnudaginn þegar ég vaknaði við klukknahljóminn frá Árbæjarkirkju ákvað ég að nú skyldi ég fara í messu. Ég klæddi mig og rölti niður Árbæinn að kirkjunni, þá tók ég eftir því að bílastæðið var fullt. Nú hélt ég að verið væri að framkvæma jarðaför en enginn var líkbíllinn svo kannski gifting eða skírn. Ég spurði eldri mann í anddyrinu hvort ekki væri venjuleg messa í gangi, hann játti því, þá var ég staddur fyrir framan dyrnar að salnum. Þegar ég opnaði þær fékk ég vægt tilfelli af mannfjöldafælni því kirkjan var pakkfull og allir í sínu fínasta. Ég horfði í forundran á allt þetta lið á meðan ég fikraði mig meðfram veggnum aftur í salinn. Ég sá laust sæti í miðjunni fyrir aftan bekkina og settist í það. Þá fór ég að virða fyrir mér mannfjöldann og velta fyrir mér hvort allt tal um tómar kirkjur í Þjóðkirkjunni væri bara rugl og Íslendingar væru upp til hópa ofsatrúarfólk. Ég var svo hissa á að þessi menningarafkimi reyndist svona vel mannaður. Presturinn síðan byrjaði að bjóða fólkið velkomið á þennan kynningarfund fyrir fermingarbörn og fjölskyldur þeirra.... Ég hefði ekki getað valið betri dag fyrir þessa fróðleiksleit. Eftir söng, bænir, leikþætti og predikanir hafði ég fengið nóg og fór. Ég var mættur þarna með því hugarfari að ég sæi í mesta lagi 13 manns þarna inni en mætti í einu messu ársins sem er þéttskipuð áheyrendum. Ég kannski prófa aftur næstu helgi.
föstudagur, apríl 25, 2003
Skrifað af Jon Minn klukkan 15:51
|